Brandarar

Hér eru nokkrir brandarar úr væntanlegri bók, Bestu barnabrandararnir - toppurinn á tilverunn, sem kemur í verslanir upp úr miðjum október:

Steini og Olli sátu að sumbli á barnum.  Eftir nokkur glös þoldi Steini ekki meira, ældi yfir sig allan og hrópaði síðan hálfvælandi:

„Konan mín á eftir að drepa mig fyrir þetta!“

Olli reyndi að stappa stálinu í Steina og sagði:

„Hafðu engar áhyggjur af þessu.  Stingdu bara tvö þúsund kalli í brjóstvasann á skyrtunni og segðu konunni þinni að einhver hafi ælt á þig og látið þig síðan fá peninga fyrir hreinsuninni.“

Þetta fannst Steina þjóðráð svo hann tók gleði sína að nýju og hélt áfram að þjóra, þar til komið var undir morgun.  Þá ákvað hann að drattast heim.  Þar beið kona hans fremur óblíð á manninn og sagði:

„Það er brennivínsstybba af þér og þú ert búinn að æla yfir þig.  Mikið svakalega ertu ógeðslegur!“

Steini umlaði á móti:

„Sjáðu til, kona.  Ég drakk bara eitt glas, en þarna var einhver gaur sem bara ældi yfir mig.  Hann var greinilega búinn að drekka alltof mikið, en honum þótti þetta svo leiðinlegt að hann lét mig fá tvö þúsund kall fyrir hreinsuninni.  Peningurinn er hérna í brjóstvasanum á skyrtunni.“

Konan leit ofan í vasann, tók þar upp peninga og sagði:

„Já, en þetta eru fjögur þúsund.“

„Það er alveg rétt,“ valt út úr Steina.  „Hann pissaði líka í buxurnar mínar!“

*

Harpa litla var sjálfstæð og dugleg stelpa og fór því ein síns liðs að kaupa sér skó.   Þegar hún var að máta það skópar sem henni leist hvað best á spurði skókaupmaðurinn:

„Hvernig eru þessir?“

„Þeir eru dálítið þröngir,“ svaraði Harpa.

„Prófaðu að toga tunguna út,“ sagði skókaupmaðurinn.

Eftir augnablik heyrðist í Hörpu:

„Þeið eðu ennþá þðöngið.“

*

Amma mín hóf að ganga tíu kílómetra á dag þegar hún varð sextug.  Í dag höfum við ekki hugmynd um hvar hún er.       

*

Gummi litli fékk að fara í berjamó með mömmu og pabba og þegar heim var komið fékk hann berjaskyr með rjóma.  Honum hafði verið kennt að þakka Guði fyrir matinn og að lokinni máltíðinni spennti hann greipar og sagði:

„Þakka þér Guð fyrir rjómann og skyrið.  Berin tíndi ég sjálfur.“

*

Ég hef virkilega slöpp læri en sem betur fer þá hylur maginn á mér þau.

*

Elli tók leigubíl heim eftir nokkuð langvinnt partý og hafði ekki setið lengi í aftursætinu þegar hann fór að klæða sig úr fötunum.  Leigubílstjórinn sá þetta í baksýnisspeglinum og sagði byrstur:

„Hættu þessu, maður!  Þú ert ekki kominn heim til  þín ennþá.“

„Hver fjandinn,“ sönglaði í Ella.  „Þú hefðir betur sagt þetta fyrr.“

„Hvað áttu við með því?“ spurði leigubílstjórinn.

„Nú, ég var rétt áðan að setja spariskóna fram fyrir dyrnar.“

*

Tveir gamlingjar, Bjössi og Siggi, voru í þann veginn að hefja leik á golfvellinum þegar Bjössi segir:

„Ert þú ekki með ágæta sjón?“

„Jú, jú,“ svarar Siggi.

„Það er fínt,“ segir Bjössi.  „Ég sé nefnilega orðið fremur illa, en fyrst sjónin þín er ennþá í góðu lagi, þá værir þú vís með að segja mér hvar kúlan mín lendir.“

„Já, ekkert mál, elsku vinur,“ segir Siggi og þar með er þeim félögum ekkert að vanbúnaði.

Bjössi undirbýr nú höggið og slær og segir síðan við Sigga:

„Sérðu kúluna?“

„Já.“

„Og er hún lent?“

„Já, hún var rétt í þessu að lenda.“

„Og hvar lenti hún?“

„É…é…ég bara man það ekki.“

*

Kona nokkur með stórt glóðarauga staulaðist inn á lögreglustöðina í Kópavogi. Hún sagði Jónasi varðstjóra að hún hefði heyrt hljóð í bakgarðinum sínum og farið til að kanna málið. Hún vissi ekki fyrr en einhver rotaði hana og nú vildi hún fá lögregluna til að finna árásarmanninn.

Þórður lögreglumaður var sendur á vettvang og kom til baka hálftíma síðar, einnig með stórt glóðarauga.

„Heldurðu að þú hafir verið barinn af sama aðila og frúin?“ spurði Jónas.

„Nei,“ svaraði Þórður. „Ég steig á sömu hrífuna.“

*

Lögreglumaðurinn:  „Sástu ekki skiltið um 50 kílómetra hámarkshraða?“

Ökumaðurinn:  „Nei, ég ók of hratt til að taka eftir því.“

*

Sigríður Jónsdóttir, ein mesta ljóskan á Akureyri og þótt víðar væri leitað, kom með ávísun inn í Landsbankann þar í bæ og ætlaði að leysa hana út.  Gjaldkerinn bað hana um að fylla út bakhlið ávísunarinnar, sem hún og gerði.  Þegar hún var búin að því og rétti fram ávísunina sagði gjaldkerinn:

„Nú verð ég bara að fá vissu um það, að þú sért í raun og veru þessi Sigríður Jónsdóttir.“

Ljóskan tók þá spegil upp úr handtösku sinni, leit í hann rétt sem snöggvast og sagði síðan:

„Jú, þetta er hún.“        

*

Á milli hinna nýgiftu:

„Hvernig líkaði þér peysan sem ég prjónaði á þig um daginn, elskan mín?“

„Alveg prýðilega, nema hvað hún er dálítið víð um ökklana.“

*

Vísindamenn gerðu einu sinni tilraun á þéttleika Lödu Sport og Toyota.  Þeir settu kött inn í Löduna og annan í Toyotuna.  Þremur dögum seinna var kötturinn í Toyotunni dauður, en kötturinn í Lödunni var horfinn.

*

Þrátt fyrir aðvaranir skíðakennarans á skíðahótelinu í Sviss ákvað Jón að prófa stóru brekkuna og það endaði með ósköpum. Hann féll niður í djúpa jökulsprungu. Nokkrum klukkutímum síðar fannst hann og einn björgunarsveitarmannanna hrópaði niður í sprunguna til hans:

„Við erum frá Rauða krossinum!“

„Mér þykir það leitt,“ sagði Jón rólega, „en ég er búinn að gefa í söfnunina ykkar.“

 

 

 

 


« Síðasta færsla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband