Færsluflokkur: Bækur
Laugardagur, 6. september 2008
Brandarar
Hér eru nokkrir brandarar úr væntanlegri bók, Bestu barnabrandararnir - toppurinn á tilverunn, sem kemur í verslanir upp úr miðjum október:
Steini og Olli sátu að sumbli á barnum. Eftir nokkur glös þoldi Steini ekki meira, ældi yfir sig allan og hrópaði síðan hálfvælandi:
Konan mín á eftir að drepa mig fyrir þetta!
Olli reyndi að stappa stálinu í Steina og sagði:
Hafðu engar áhyggjur af þessu. Stingdu bara tvö þúsund kalli í brjóstvasann á skyrtunni og segðu konunni þinni að einhver hafi ælt á þig og látið þig síðan fá peninga fyrir hreinsuninni.
Þetta fannst Steina þjóðráð svo hann tók gleði sína að nýju og hélt áfram að þjóra, þar til komið var undir morgun. Þá ákvað hann að drattast heim. Þar beið kona hans fremur óblíð á manninn og sagði:
Það er brennivínsstybba af þér og þú ert búinn að æla yfir þig. Mikið svakalega ertu ógeðslegur!
Steini umlaði á móti:
Sjáðu til, kona. Ég drakk bara eitt glas, en þarna var einhver gaur sem bara ældi yfir mig. Hann var greinilega búinn að drekka alltof mikið, en honum þótti þetta svo leiðinlegt að hann lét mig fá tvö þúsund kall fyrir hreinsuninni. Peningurinn er hérna í brjóstvasanum á skyrtunni.
Konan leit ofan í vasann, tók þar upp peninga og sagði:
Já, en þetta eru fjögur þúsund.
Það er alveg rétt, valt út úr Steina. Hann pissaði líka í buxurnar mínar!
*
Harpa litla var sjálfstæð og dugleg stelpa og fór því ein síns liðs að kaupa sér skó. Þegar hún var að máta það skópar sem henni leist hvað best á spurði skókaupmaðurinn:
Hvernig eru þessir?
Þeir eru dálítið þröngir, svaraði Harpa.
Prófaðu að toga tunguna út, sagði skókaupmaðurinn.
Eftir augnablik heyrðist í Hörpu:
Þeið eðu ennþá þðöngið.
*
Amma mín hóf að ganga tíu kílómetra á dag þegar hún varð sextug. Í dag höfum við ekki hugmynd um hvar hún er.
*
Gummi litli fékk að fara í berjamó með mömmu og pabba og þegar heim var komið fékk hann berjaskyr með rjóma. Honum hafði verið kennt að þakka Guði fyrir matinn og að lokinni máltíðinni spennti hann greipar og sagði:
Þakka þér Guð fyrir rjómann og skyrið. Berin tíndi ég sjálfur.
*
Ég hef virkilega slöpp læri en sem betur fer þá hylur maginn á mér þau.
*
Elli tók leigubíl heim eftir nokkuð langvinnt partý og hafði ekki setið lengi í aftursætinu þegar hann fór að klæða sig úr fötunum. Leigubílstjórinn sá þetta í baksýnisspeglinum og sagði byrstur:
Hættu þessu, maður! Þú ert ekki kominn heim til þín ennþá.
Hver fjandinn, sönglaði í Ella. Þú hefðir betur sagt þetta fyrr.
Hvað áttu við með því? spurði leigubílstjórinn.
Nú, ég var rétt áðan að setja spariskóna fram fyrir dyrnar.
*
Tveir gamlingjar, Bjössi og Siggi, voru í þann veginn að hefja leik á golfvellinum þegar Bjössi segir:
Ert þú ekki með ágæta sjón?
Jú, jú, svarar Siggi.
Það er fínt, segir Bjössi. Ég sé nefnilega orðið fremur illa, en fyrst sjónin þín er ennþá í góðu lagi, þá værir þú vís með að segja mér hvar kúlan mín lendir.
Já, ekkert mál, elsku vinur, segir Siggi og þar með er þeim félögum ekkert að vanbúnaði.
Bjössi undirbýr nú höggið og slær og segir síðan við Sigga:
Sérðu kúluna?
Já.
Og er hún lent?
Já, hún var rétt í þessu að lenda.
Og hvar lenti hún?
É é ég bara man það ekki.
*
Kona nokkur með stórt glóðarauga staulaðist inn á lögreglustöðina í Kópavogi. Hún sagði Jónasi varðstjóra að hún hefði heyrt hljóð í bakgarðinum sínum og farið til að kanna málið. Hún vissi ekki fyrr en einhver rotaði hana og nú vildi hún fá lögregluna til að finna árásarmanninn.
Þórður lögreglumaður var sendur á vettvang og kom til baka hálftíma síðar, einnig með stórt glóðarauga.
Heldurðu að þú hafir verið barinn af sama aðila og frúin? spurði Jónas.
Nei, svaraði Þórður. Ég steig á sömu hrífuna.
*
Lögreglumaðurinn: Sástu ekki skiltið um 50 kílómetra hámarkshraða?
Ökumaðurinn: Nei, ég ók of hratt til að taka eftir því.
*
Sigríður Jónsdóttir, ein mesta ljóskan á Akureyri og þótt víðar væri leitað, kom með ávísun inn í Landsbankann þar í bæ og ætlaði að leysa hana út. Gjaldkerinn bað hana um að fylla út bakhlið ávísunarinnar, sem hún og gerði. Þegar hún var búin að því og rétti fram ávísunina sagði gjaldkerinn:
Nú verð ég bara að fá vissu um það, að þú sért í raun og veru þessi Sigríður Jónsdóttir.
Ljóskan tók þá spegil upp úr handtösku sinni, leit í hann rétt sem snöggvast og sagði síðan:
Jú, þetta er hún.
*
Á milli hinna nýgiftu:
Hvernig líkaði þér peysan sem ég prjónaði á þig um daginn, elskan mín?
Alveg prýðilega, nema hvað hún er dálítið víð um ökklana.
*
Vísindamenn gerðu einu sinni tilraun á þéttleika Lödu Sport og Toyota. Þeir settu kött inn í Löduna og annan í Toyotuna. Þremur dögum seinna var kötturinn í Toyotunni dauður, en kötturinn í Lödunni var horfinn.
*
Þrátt fyrir aðvaranir skíðakennarans á skíðahótelinu í Sviss ákvað Jón að prófa stóru brekkuna og það endaði með ósköpum. Hann féll niður í djúpa jökulsprungu. Nokkrum klukkutímum síðar fannst hann og einn björgunarsveitarmannanna hrópaði niður í sprunguna til hans:
Við erum frá Rauða krossinum!
Mér þykir það leitt, sagði Jón rólega, en ég er búinn að gefa í söfnunina ykkar.
Fimmtudagur, 4. september 2008
Jónas Hallgrímsson
Í fyrra kom út kennslubókin Sveinn í djúpum dali - um ævi og störf Jónasar Hallgrímssonar, eftir Þórð Helgason og Ingibjörgu Frímannsdóttur. Þetta er afar gott verk og hentar vel fyrir nemendur í 6.-10. bekk; reynir á býsna marga þætti íslenskunnar, enda var stuðst við Aðalnámskrá grunnskóla við samningu þess, og er um fram allt bráðskemmtilegt. Þessi kennslubók var gefin út fyrir dag íslenskrar tungu í fyrra og var þá valin til kennslu í fjölmörgum skólum. Vonandi verður svo áfram, enda þurfum við að halda fast í íslenska tungu og þetta er einn liðurinn í því.
Miðvikudagur, 3. september 2008
Gamansögur
Í SPENNU, sem er sakamálablað, er að finna nokkrar gamansögur. Hér koma þær:
Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi heilbrigðisráðherra og sjálfstæðismaður, er mikill knattspyrnuáhugamaður og fylgist grannt með öllu boltasparki í sjónvarpinu. Og það var einmitt yfir slíku sjónvarpsefni í kringum jólin 2006 sem hann varð fyrir því óláni að reka sig í kertaljós. Var hann klæddur í nælonskyrtu og brann hún við húð hans með þeim afleiðingum að hann varð að dvelja nokkra daga á sjúkrahúsi vegna sára sinna.
Þessu óhappi fylgdu vissulega mikil óhljóð. Þrátt fyrir hávær sársaukakvein kom þó ekkert af heimilisfólkinu til að aðstoða Guðlaug í þessum hremmingum. Þótti honum það í hæsta máta undarlegt, þar sem lætin voru af þeim toga að það hefði ekki átt að fara framhjá neinum í húsinu, að eitthvað meira en lítið hafði gerst. Það var því með nokkrum þjósti sem Guðlaugur spurði elsta barnið á heimilinu hvort að það hefði ekki heyrt hrópin í sér og köllin.
Jú, svaraði barnið.
Og af hverju komstu mér þá ekki til hjálpar? spurði Guðlaugur því næst.
Æ, ég hélt bara að Liverpool hefði fengið á sig mark!
*
Séra Valdimar Eylands fæddist á Tittlingastöðum í Víðidal í Þorkelshólshreppi í Vestur- Húnavatnssýslu árið 1901. Þar ólst hann ennfremur upp, en flutti vestur til Kanada í árslok 921, hvar hann starfaði sem prestur mestan hluta ævinnar, meðal annars hjá íslenskum söfnuðum. Einnig var hann prestur um eins árs skeið á Útskálum í Garði er hann og séra Eiríkur Sv. Brynjólfsson skiptu á prestaköllum.
Vafalítið finnast huggulegri bæjarheiti en það sem æskuheimili Valdimars bar, enda fór það svo að þegar hann á fullorðinsárum var spurður að því hvaðan hann væri, hikaði hann eilítið en síðan kom svarið:
Frá Smáfuglastöðum.
*
Það var fyrir mörgum árum sem ritstjórar Morgunblaðsins örkuðu brúnaþungir inn í blómabúð í Reykjavík og báðu um þann stærsta og fallegasta blómavönd sem til væri. Þeir ætluðu að færa hann gamalli konu í sárabætur af þeirri ástæðu að meinleg innsláttarvilla hafði slæðst inn í minningargrein um bróður hennar og gert hana sjálfa að bölvuðum óþverra í hugum þeirra sem ekki þekktu til.
Í minningargreininni átti að standa:
Síðustu árin dvaldist hann hjá systur sinni í Hveragerði....
En útkoman varð:
Síðustu árin kvaldist hann hjá systur sinni í Hveragerði...
*
Stúdentsefni við Menntaskólann á Akureyri áttu einhverju sinni að skrifa ritgerð á prófi og voru ritgerðarefnin fjögur: Líkamsrækt, Hallgrímur Pétursson. Fiskar og Gróðurmold. Vitaskuld átti hver nemandi bara að velja eitt af þessum viðfangsefnum, en einn þeirra kom þeim öllum fyrir í sinni ritgerðarsmíð og var hún svohljóðandi:
Líkamsrækt Hallgríms Péturssonar var aldrei upp á marga fiska enda er hann löngu orðinn að gróðurmold.
*
Ingólfur Bjarni Sigfússon var að lesa fréttir á Stöð 2 og varaði þá meðal annars við óhollustu í tilteknum matvælum. Fréttinni lauk hann á þennan veg:
Þetta á einkum við um vanfærar konur á barneignaraldri.
*
Aðalsteini Jónssyni á Vaðbrekku, föður hagyrðinganna Hákonar og Ragnars Inga og þeirra systkina, þótti gott að fá sér í staupinu og kom þá fyrir að hann drakk nokkuð ótæpilega; stundum svo mikið að hann endaði gleðskapinn útafliggjandi í nánum félagsskap við óminnishegrann.
Aðalsteinn vildi þó ekki viðurkenna að hann ætti við áfengisvandamál að stríða fyrr en hann var orðinn fjörgamall og kominn í hjólastól. Hann var þá inntur eftir því, hvernig þetta lýsti sér og ekki stóð á svarinu frekar en venjulega:
Haldið þið kannski að það sé ekki vandamál að komast ekki hjálparlaust í vínskápinn?
*
Snorri Hallgrímsson, læknaprófessor, gerði eitt sinn að lærbroti á konu, sem var mjög feitlagin. Daginn eftir, þegar prófessorinn kom á stofugang, spurði konan, hvort ekki hefði verið erfitt að komast að þessu.
Jú, blessaðar verið þér, ansaði hann. Það sá í iljarnar á mér þegar ég var kominn inn að beini.
*
Hinn góðkunni tónlistarmaður, Magnús Kjartansson, var að leika fyrir dansi á Hótel Sögu ásamt hljómsveit sinni þegar til hans kemur eldri maður og biður hann með þjósti nokkrum að lækka í tónlistinni.
Magnúsi blöskraði frekjugangurinn og segir:
Heyrðu góði! Ættir þú ekki frekar að vera hinum megin við götuna?
Ballgesturinn skildi ekki alveg hvað Magnús átti við, en spurði þó:
Hver fjandinn er þar?
Og svarið kom um hæl:
Þjóðminjasafnið.
*
Ragnar Bjarnason hefur staðið á sviðinu lengur en elstu menn muna og verður bara betri með aldrinum ef eitthvað er. Hann á að baki áratuga söngferil, en hefur þó jafnframt fengist við önnur störf samhliða tónlistinni, svo sem leigubílaakstur.
Eitt sinn, um miðja nótt, settist ung stúlka á stuttu pilsi upp í leigubílinn hjá Ragnari og þegar staðnæmst var fyrir utan heimili hennar, kom í ljós að hún átti ekki fyrir farinu.
Hvað ætlarðu að gera í því? spurði Ragnar og leit aftur í til hennar.
Þá lyfti hún upp pilsinu svo að sá í það allra heilagasta og spurði:
Má ég borga með þessu?
Ragnar lét þetta ekki koma sér úr jafnvægi og svaraði um hæl:
Áttu ekki eitthvað smærra, góða?
*
Pétur Kristjánsson, sem lést langt um aldur fram, er eitt af stærstu nöfnunum í íslenskri tónlistarsögu. Hann var söngvari margra af þekktustu hljómsveitum landsins, þar á meðal Pelican og Paradís svo að einungis tvær séu nefndar.
Eftir að Pétur var hættur hinu eiginlega hljómsveitastússi tróð hann stundum upp með hinum og þessum hljómsveitum, sér og öðrum til óblandinnar ánægju. Ein af þessum hljómsveitum var Sálin hans Jóns míns og þegar kom að því að kynna gamla brýnið inn á sviðið þá gerði Stefán Hilmarsson það iðulega með þessum orðum:
Góðir gestir, næstur stígur á svið Pétur Kristjánsson. Hann hefur engu gleymt nema textunum.
*
Í 200 mílna þorskastríðinu fengu Bretar að kynnast ýmsum brögðum af hálfu Íslendinga. Freigátur hennar hátignar fylgdu íslensku varðskipunum eins og skuggi og þegar þau nálguðust bresku togarana fóru þær að senda út viðvaranir til þeirra, greindu þá meðal annars frá staðsetningu varðskipanna, stefnu þeirra og hraða.
Varðskipsmennirnir tóku þennan boðskap upp á segulband og sendu hann síðan út við önnur tækifæri. Þá sendu freygáturnar út tilkynningar um, að þetta væri fölsk viðvörun. Þetta tóku varðskipsmenninrir einnig upp á segulband og notuðu þegar freygáturnar voru að senda út raunverulegar viðvaranir.
Þetta var mikið talstöðvastríð, en fyrir utan að plata Bretana með þessum hætti, þá tóku varðskipsmennirnir upp á því að spila tónlist í talstöðvunum. Voru þeir fljótir að átta sig á því að það var einkum einn íslenskur tónlistarmaður sem fór verulega í taugarnar á andstæðingunum, nefnilega Megas. Var hann þar af leiðandi spilaður í gegnum talstöðvarnar jafnt nótt sem nýtan dag, Bretunum, sem sögðust aldrei hafa heyrt aðra eins hörmung, til hins mesta ergelsis.
Hefurðu lesið SPENNU? Hún fæst í næstu bókabúð og er æsispennandi lesning.
Miðvikudagur, 3. september 2008
Bauka-Jón
Bókaútgáfan Hólar hefur nýverið gefið út bókina BAUKA-JÓN eftir Jón Þ. Þór sagnfræðing. Bókin fjallar um Jón Vigfússon, ævintýramann á 17. öld, sem komst ungur til metorða en var rekinn úr embætti sýslumanns Borgfirðinga fyrir launverslun. Þá hélt hann til Kaupmannahafnar og tókst að koma ár sinni svo vel fyrir borð - sumir segja með mútum - að Danakonungur skipaði hann varabiskup á Hólum í Hjaltadal. Og hann varð meira en það: Hann varð biskup þar og er sá eini til að gegna slíkri stöðu án þess að hafa hlotið prestsvígslu.
Bauka-Jón er glimrandi skemmtileg saga og ætti að höfða til allra þeirra sem áhuga hafa á þjóðlegum fróðleik. Bókin fæst í næstu bókabúð og kostar 1.980-.
Þriðjudagur, 2. september 2008
Dulrænar frásagnir
Tímaritið SPENNA hefur hug á því að birta dulrænar frásagnir. Átt þú einhverjar slíkar í fórum þínum? Þyrfti helst að fylla út í A-4 síðu hið minnsta. Ef svo er, þá mættirðu senda póst á holar@simnet.is og láta vita af þér.
SPENNA er flytur annars að meginefni sannar sakamálasögur en einnig íslenskan fróðleik og gamanmál. Hefurðu lesið nýjustu SPENNU? Hún fæst í næstu bókabúð.
Mánudagur, 1. september 2008
Heilsuátak
HEILSUÁTAK! Bók sem hefur hjálpað mörgum til betra og heilsusamlegra lífs. Fæst í öllum bókabúðum, en einnig er hægt að panta hana hjá útgefanda í gegnum netfangið holar@simnet.is. Tilboðsverð hjá Bókaútgáfunni Hólum: 3.980 (fullt verð: 4.380) og bókin er send til þín án aukakostnaðar. Er ekki rétti tíminn núna til að taka sér tak?
Mánudagur, 1. september 2008
Ráðherratroðningur
Sunnudagur, 31. ágúst 2008
Hundavinir
Bókaútgáfan Hólar hefur gefið út í kilju MARLEY OG ÉG AÐ EIGA OG ELSKA HEIMSINS VERSTA HUND, eftir John Grogan, í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. Bókin byggir á sannsögulegum atburðum úr lífi Grogan-hjónanna sem ekki gátu haldið lífi í blómi og telja sig þar af leiðandi vanmáttug í barnauppeldi. Fyrst þau drápu blómið, hvernig ættu þau þá að geta haldið lífi í ungbarni? Til að ganga úr skugga um uppeldishæfileika sína ákveða þau að fara veginn á milli blóms og barns nefnilega að fá sér hund og athuga hvernig til muni takast. Og þau héldu að þetta væri bara ósköp venjulegur Labrador-hundur, en reyndin varð önnur. Marley (heitir í hausinn á reaggikóngnum Bob Marley) var gjörsamlega óútreiknanlegur; algjörlega hömlulaus, en þó alltaf sama sakleysið uppmálað, sama hvað á hafði gengið.
Bókin hefur fengið frábæra dóma og í einum þeirra (Philadelphia Inquirer) stendur að í henni sé kafað að dýpstu rótum samskipta dýrs og manns, á gamansaman, einlægan og afar persónulegan hátt. Í annarri umfjöllun (People) um bókina er þetta að finna: Fyndin og hjartnæm saga um fimmtíu kílóa Labrador sem var jafn tryggur og elskulegur og hann var óþekkur.
Marley og ég er svo sannarlega bók fyrir alla hundavini og hana má fá í öllum bókaverslunum. Einnig er hægt að panta hana á holar@simnet.is og í s. 587-2619.
Sunnudagur, 31. ágúst 2008
Utanþingsstjórn
Er að velta því fyrir mér hvort að ekki sé kominn tími á utanþingsstjórn. Sú ríkisstjórn, sem nú situr og hefur einhvern mesta meirihluta, sem sögur fara af, á bak við sig er gjörsamlega getulaus og engu líkara en hver og einn í ríksstjórninni hafi fengið kæruleysissprautu daginn eftir að hún var mynduð. Enginn þar hefur áhuga á því að fara ofan í saumana á eftirlaunamálinu skelfilega, verðbólgan æðir áfram, stýrivextir eru skuggalega háir, verðbætur á lánum hafa sligað marga og munu gera út af við enn fleiri áður en langt um líður og atvinnuleysi er að aukast. Þetta getur varla talist glæsilegt ástand og fyrst þingheimur ræður ekki við þetta þá ætti að fela fólki utan þings að bæta þarna úr. Væri ekki kjörið að virkja menn á borð við Sigurð G. Guðjónsson, lögfræðing, og Guðmund Ólafsson, hagfræðing, til að koma skikki á hlutina og það sem fyrst? Fleira gott fólk mætti nefna í þessu sambandi, en ekki verður farið nánar út í þá sálma hér og nú.
Sunnudagur, 31. ágúst 2008
Dávaldurinn
Að kvöldi 10. október 1955 kom breski togarinn Lord Lloyd á mikilli ferð inn Norðfjörð og stefndi á bæjarbryggjuna. Nokkrir menn voru á bryggjunni og tóku á móti springnum. Eflaust hafa þeir átt von á því að togarinn myndi stoppa þarna í einhvern tíma, en þegar þeir höfðu sett springinn fastan og bógur togarans nam við bryggjuhausinn stökk skeggjaður maður ofan úr togaranum og á bryggjuna. Í sömu andrá var öskrað úr brúnni að sleppa og þegar svo hafði verið gert bakkaði togarinn frá bryggjunni, snerist í hálfhring og hélt síðan fúllspítt út fjörðinn.
Maður þessi, sem þarna stökk í land, reyndist heita Martin Sommers. Hann var frá Nýja-Sjálandi og hafði þann starfa að ritstýra erlendu fréttadeildinni hjá bandaríska vikuritinu The Saturday Evening Post. Dvöl Sommers um borð í togaranum mun hafa tengst þessu starfi hans, en hún varð þó hálf endaslepp og kom þar nokkuð sérkennilegt til. Hann var nefnilega gæddur þeim hæfileika að geta dáleitt menn og komst sú saga á kreik að hann hefði hvað eftir annað dáleitt alla karlana í miðri aðgerð, þannig að þeir ýmist stóðu stífir og duttu svo hver um annan þveran í veltingnum eða rugluðust svo gjörsamlega að þeir settu alla hausa niðrí lest, en fleygðu afganginum af þorskinum fyrir borð. Skipstjórinn veitti því athygli að ekki var allt með felldu á dekkinu og spurði stýrimanninn hverju það sætti. Var því svarað til, að nýjasti meðlimurinn um borð hefði þessi áhrif á karlana og þar af leiðandi taldi skipstjórinn það nauðsynlegt, að taka hann tali og fá botn í þetta. Sommers var því kallaður upp í brú, en þar gerði hann sér lítið fyrir og dáleiddi skipstjórann og lét hann síðan toga í tvo sólarhringa samfellt á einhverjum slóðum, þar sem aldrei hafði fengist bein úr sjó og varð engin breyting á því. Ekki er vitað hvernig skipstjórinn losnaði úr dáleiðslunni, en þegar að því kom að hún bráði af honum læsti hann að sér í brúnni til að fyrirbyggja frekara samneyti við dávaldinn og síðan var stefnan tekin þangað sem styst var til lands. Það var til Neskaupstaðar og þar losuðu skipverjarnir sig við Sommers.
Hvað gerði dávaldurinn í Neskaupstað?
Þú getur lesið um það í hinu nýja sakamálatímariti SPENNU en fyrir utan sannar sakamálasögur, sem þar eru í meirihluta að efni, er þar einnig að finna gamansögur og fróðleik.
SPENNU fæst í öllum bókabúðum. Einnig er hægt að gerast áskrifandi að því í netfanginu holar@simnet.is (áskriftin er einungis fyrir greiðslukort og fæst tímartitið þá með 15% afslætti, á kr. 757 í stað 890-. Sjá meira um SPENNU í greinunum hér að neðan.