Laugardagur, 30. ágúst 2008
Peningafölsun
Mueller malar gull
Edward Mueller var góðlegur og lágvaxinn Ameríkani. Framkoma hans út á við bar engin merki þess að hann væri sérvitur, ótraustur eða útsmoginn. Í augum vina og nágranna í New York var hann vinalegur, gamall maður sem hafði lifað friðsælu og viðburðasnauðu lífi sem húsvörður í sambýli í austurhluta New York. En það sem engum datt í hug, var að eftir að þessi vinalegi maður fór á eftirlaun tók hann upp fremur óvenjulega iðju.
Mueller lét af störfum sem húsvörður árið 1937. Eftir það fór hann að afla sér fjár í bókstaflegum skilningi. Hann var ekkjumaður, átti eina dóttur sem var gift en bjó fjarri honum, þannig að hann dvaldi að mestu leyti einsamall með hundinum sínum í lítilli íbúð við 96. stræti. Eftir misheppnaða tilraun sem skransali, festi hann kaup á gamalli prentvél og kom henni fyrir í íbúðinni sinni. Hann átti myndavél á þrífæti og gat keypt blek og annað tilheyrandi fyrir afganginn af sparifé sínu. Þar með var hann tilbúinn að framleiða fyrsta dollaraseðilinn sinn.
Mueller ljósmyndaði ósvikinn dollaraseðil og yfirfærði á glerplötu. Hann notaði ekki réttu tegundina af pappír og þess utan voru litasamsetningarnar rangar við framleiðslu á tilraunaseðlunum. Því urðu þeir mjög grófir og viðvaningslegir. En hann hafði ekki áhyggjur af því. Hann vissi af reynslu að enginn færi að grandskoða 1 dollaraseðil. Kannski 5 dollaraseðil, já. Og örugglega 10 dollaraseðil en ekki 1 dollaraseðil. Svo framarlega sem hann verslaði skynsamlega fyrir 1 dollaraseðlana, kæmist glæpur hans ekki upp, eða að minnsta kosti væri ekki hægt að rekja seðlana til hans.
Mueller fór út að ganga með hundinn á hverjum einasta degi á 96. stræti og kom við í matvöruverslun, bar eða sjoppu til að versla. Hann var mjög gætinn í innkaupum. Ef eitthvað kostaði t.d. 4 dollara, þá greiddi hann fyrir vöruna með þremur alvöru dollaraseðlum og einum seðli af eigin framleiðslu. Með þessari aðferð lét hann aldrei af hendi nema einn falsaðan seðil í hvert skipti sem hann verslaði. Og eftir að hafa verslað alls staðar við sína götu, færði hann út kvíarnar og losaði sig við Mueller-dollara í hvert skipti sem hann verslaði.
Hvernig fór fyrir Mueller?
Þetta kaflabrot er úr hinu nýja sakamálatímariti SPENNU sem fæst í öllum bókabúðum. Einnig er hægt að gerast áskrifandi að því í netfanginu holar@simnet.is (áskriftin er einungis fyrir greiðslukort og fæst tímartitið þá með 15% afslætti, á kr. 757 í stað 890-. Sjá meira um SPENNU í greinunum hér að neðan.
Laugardagur, 30. ágúst 2008
Lyfjanotkun Hitlers
Lyfjanotkun Hitlers
-úr læknaskýrslum um foringjann
Bretar komust fyrir nokkrum áratugum í læknaskýrslur Theodore Morrell, einkalæknis Adolfs Hitler, og kenndi þar margra grasa. Læknirinn skráði 73 mismunandi lyfjategundir sem hann gaf Hitler og var einkum um að ræða sterk svefnlyf, amfetamín, kókaín, hormóna og steralyf. Þessum lyfjum var ekki naumt skammtað.
Hitler fæddist árið 1889 í Braunau í Austurríki-Ungverjalandi, nálægt þýsku landamærunum. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út, árið 1914, gerðist hann sjálfboðaliði í þýska hernum og barðist á vesturvígstöðvunum nær allt stríðið, þar til hann særðist um miðjan október 1918 eftir gasárás og var fluttur á herspítala. Eftir ósigur Þjóðverja settist Hitler að í München í Bæjaralandi og gekk 1919 til liðs við þann stjórnmálaflokk sem síðar var kallaður Nasistaflokkurinn. Hitler varð formaður þess flokks 1921 og leiddi til æviloka. Hann var útnefndur kanslari Þýskalands árið 1933 og ári síðar, eftir fráfall Hindenburg forseta landsins, var hann að heita má orðinn einræðisherra.
Á valdatíma sínum leiddi Hitler Þýskaland út í stríð við flesta nágranna sína. Seinni heimsstyrjöldin hófst með innrás Þjóðverja í Pólland 1939 og lauk henni sex árum síðar, 1945, með algjörum ósigri þeirra. Á lokadögum stríðsins, þegar ljóst var hvert stefndi, framdi Hitler sjálfsmorð í neðanjarðarbyrgi í Berlín, en þar hafði hann hafst við um nokkurt skeið.
Síðustu árin var Hitler á daglegum skammti af kókaíni vegna krónískrar bólgu í nefslímhúð. Hann tók þá daglega tvo skammta af 10% kókaíni. Vegna svefnleysis fékk hann auk þess stóra skammta af barbítúrötum og steralyfinu kortisoni og svo morfíni vegna bakverkja.
Hitler þjáðist af sterkri aðsóknarkennd sem meðal annars er fylgikvilli áðurnefndra lyfja. Ef til vill var sú kennd rökrétt að nokkru leyti. Margir vildu hann feigan og lögðu á ráð um að koma honum fyrir kattarnef allt frá upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1939.
Amfetamín- og kókaínneysla var meðal annars talin stuðla að æðisköstunum sem Hitler fékk. Við minnsta mótlæti stífnaði hann allur, hríðskalf, svitnaði og ennfremur var eins og augun ætluðu út úr höfðinu. Hann æddi um gólf, barði saman höndum og froðufelldi. Skýrslur, ævisögur og umsagnir margra hershöfðingja sýndu þetta svart á hvítu.
En samt hélt Morrell áfram að gefa honum lyfin.
Þessi kafli er úr hinu nýja sakamálatímariti SPENNU sem fæst í öllum bókabúðum. Einnig er hægt að gerast áskrifandi að því í netfanginu holar@simnet.is (áskriftin er einungis fyrir greiðslukort og fæst tímartitið þá með 15% afslætti, á kr. 757 í stað 890-. Sjá meira um SPENNU í greinunum hér á undan.
Föstudagur, 29. ágúst 2008
Blóðsugan - kjallaraherbergi dauðans
Blóðsugan
-kjallaraherbergi dauðans
Donald McSwann gekk beint í dauðagildru þegar hann fylgdi vini sínum John Haigh niður í kjallaraverkstæði hans. McSwann rak kúluspilasal í London, þar sem Haigh starfaði stundum sem tæknimaður. Haigh gortaði af verkstæði sínu og þetta var satt að segja kjallari til að vera stoltur af. Þarna voru verkfæri af öllum stærðum og gerðum fyrir handverksmanninn: trésmiðinn, logsuðumanninn, járnsmiðinn og morðingjann.
McSwann starði á 40-gallona brennisteinssýrutank í einu horninu. Af forvitni spurði hann til hvers þetta væri eiginlega. Spurningu hans var aldrei svarað. Haigh læddist aftan að honum og reiddi hamar hátt á loft ... hann hafði slátrað fyrsta fórnarlambi sínu.
Haigh sagði síðar, þegar hann viðurkenndi glæpinn, að hann hefði drukkið eitthvað af blóði McSwann. Síðan hefði hann varið nóttinni í að búta líkið niður og látið líkamshlutana ofan í brennisteinssýrutankinn. Brennisteinssýran bullaði og sauð, þannig að hann neyddist til að flýja út fyrir endrum og sinnum, til að fá sér ferskt loft. Eftir hádegi næsta dag voru líkamsleifar McSwann orðnar að þykkri leðju. Haigh losaði sig við hana, skólpfötu eftir skólpfötu, með því að skvetta hryllilegum leifunum niður í holu í kjallaranum sem tengd var frárennsliskerfinu.
Þetta var í september 1944 og enginn hugsaði neitt um hvarf Donald McSwann. Gróðamorð Haigh virtist ætla að heppnast fullkomlega. Hann sannfærði aldraða foreldra McSwann um að sonur þeirra ætlaði að vera í felum í Skotlandi þar til stríðinu lyki. Haigh fór meira að segja til Skotlands einu sinni í viku til að póstleggja bréf til þeirra, undirritað með nafni McSwann. Þess á milli rak hann kúluspilasalinn sem hafði tilheyrt fórnarlambi hans. Almenningur sem og hermenn flykktust í spilasalinn og Haigh rakaði inn peningum. En samt var það ekki nægilegt til að öðlast þann lífsstíl sem hann sóttist eftir, þannig að græðgin varð til þess að hann framdi næstu morð.
Þetta óhugnalega kaflabrot er úr hinu nýja tímariti SPENNU. Þar geturðu lesið sannar sakamálasögur og þ. á m. framhaldið af þessum kafla.
Fimmtudagur, 28. ágúst 2008
SPENNA
Bókaútgáfan Hólar hefur hleypt af stokkunum nýju tímariti, SPENNU. Það inniheldur, eins og nafn þess bendir til, afar spennandi og sannar sakamálasögur, en einnig verður þar að finna íslenskan fróðleik, gamansögur og vísnahorn. Þetta er 40 bls. tímarit og mun það kosta kr. 890 m/vsk. Á meðal efnis í fyrsta blaðinu er eftirfarandi:
Bonnie og Clyde hættulegasta glæpapar í heimi
Blóðsugan kjallaraherbergi dauðans
Lyfjanotkun Hitlers
Mueller malar gull (bráðskemmtileg frásögn af peningafalsara)
Ástkona sölumanns deyr
Viðurnefni í Vestmannaeyjum
Dávaldur í Neskaupstað
Vísnahorn Ragnars Inga
Íslenskar gamansögur
SPENNA fæst í öllum bókabúðum. Auk þess er hægt að gerast áskrifandi að SPENNU í gegnum netfangið holar@simnet.is og í s. 587-2619,
Föstudagur, 17. nóvember 2006
Ævisaga Margrétar Frímannsdóttir, Stelpan frá Stokkseyri
Um þessar mundir er Bókaútgáfan Hólar að gefa út Stelpuna frá Stokkseyri, ævisögu Margrétar Frímannsdóttur, eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur, bókmenntafræðing. Kennir margra grasa í bókinni, en í henni er m.a. fjallað um æskuárin á Stokkseyri, sviptingar í einkalífi, erfið veikindi, auk hrífandi og ljóslifandi umfjöllunar um starf Margrétar á vettvangi stjórnmálanna. Fjallar hún á eftirminnilegan hátt um baráttuna við erfðaprinsinn Steingrím J. Sigfússon um formannssætið í Alþýðubandalaginu og ekki síður tildrögin að stofnun Samfylkingarinnar, sem hún átti hvað stærstan þáttinn í. Bókin á erindi við alla þá sem láta sig varða stjórnmál og samfélagsmál, enda Margrét einn af mestu stjórnmálaskörungum okkar Íslendinga á síðari árum.
Hver bókaútgáfan af annarri keppist nú við að birta kafla úr þeim bókum sem koma munu út fyrir jólin, til að gefa lesendum nasaþefinn af því sem vænta má, og geta Hólamenn ekki verið neinir eftirbátar hvað það varðar. Að því tilefni má finna stúf úr Stelpunni af Stokkseyri hér að neðan, en hann er tekinn úr kaflanum ,,Fólkið vill samfylkingu", sem fjallar um aðdragandann að stofnun Samfylkingarinnar og þeirra átaka sem urðu innan Alþýðubandalagsins þegar sameiningarferlið fór á fullt.
Ég var sannfærð um að það væri óðs manns æði að ætla sér að reyna að kaupa þessa menn til fylgis við sameiningarhugsjónina. Menn sem alla tíð höfðu verið á móti sameiningu. Menn sem ég hafði árum saman hlustað á halda ræður og koma með heitingar gegn krötunum. Átti ég að fara að versla með stefnuna og gefa eftir hugsjónir um sameinaðan flokk sem hefði möguleika á að breyta þjóðfélaginu og þyrfti ekki að selja sálina úr stefnu sinni í hvert sinn sem farið væri í viðræður um myndun ríkisstjórnar? Nei, mér fannst betra að þessir menn færu annað. Ef byrjað er að kaupa menn til fylgis við stefnumálin þá veit maður aldrei til hvers það leiðir eða hvar á að láta staðar numið.
Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, vildi ekki taka þátt í vinstra samstarfinu vegna þess að hann gat ekki hugsað sér að vinna með krötum. Í raun var hann óháður (þingflokkurinn var þingflokkur Alþýðubandalagsins og óháðra) og því aldrei í liði okkar Alþýðubandalagsmanna heldur. Mér þóttu þessar yfirlýsingar skrítnar vegna þess að í BSRB vann hann með mörgum krötum og það samstarf gekk að mínu viti alveg ágætlega. Ögmundur var þó ekki að biðja um tilslakanir eða sölumennsku,heldur lá afstaða hans fyrir strax í upphafi, skýr og afdráttarlaus eins og hann sjálfur.
[...]
Margsinnis síðan hef ég heyrt sæmilega greint fólk halda því fram að Vinstri grænir séu slíkur hugsjónaflokkur að þeir hafi ekki getað hugsað sér að gefa tommu eftir í sameiningarviðræðunum. Þeir vilji líka, ef til vill af ásettu ráði, vera litlir og mjög vinstrisinnaðir vegna þess að það þurfi að sýna stjórnvöldum aðhald á hverjum tíma.
Þetta er tómt bull og kjaftæði. Þeir sem stóðu að því að stofna Vinstri græna eru, þvert á móti, stjórnendur í eðli sínu og gerðu það ekki aðeins vegna hugsjóna sinna, heldur einnig vegna þess að þeir vilja vera kóngar í sínum flokki. Steingrímur J. Sigfússon er sterkur stjórnmálamaður, en ekki sá sem best er til þess fallinn að ná fram samstöðu og sætta ólík sjónarmið. Hann vill stjórna og hann hefði aldrei farið að sameinast öðrum flokkum, vitandi að hann þyrfti að gefa eftir formannstitilinn fljótlega eftir sameiningu.Það er líka eftirtektarvert hvers vegna aldrei var gert neitt veður út af hersetunni á Keflavíkurflugvelli þegar þeir, sem seinna urðu forystumenn Vinstri grænna, sátu í ríkisstjórn. Hefði það ekki átt að vera forgangsatriði að selja aldrei sannfæringu sína? Við í Alþýðubandalaginu vorum svo sem heldur engir sérstakir talsmenn umhverfismála. Ég man ekki til þess að Alþýðubandalagið í ríkisstjórn legði áherslu á umhverfismál. Umhverfisráðuneytið var fyrst og fremst stofnað til þess að búa til fleiri ráðherrastóla og styrkja ríkisstjórnina með aðild Borgaraflokksins.
Ég man ekki betur en Alþýðubandalagið væri á móti því að styrkja Umhverfisráðuneytið, sem þá var nýstofnað, með því að flytja hluta starfsemi um landgræðslu og skógrækt frá Landbúnaðarráðuneytinu inn í Umhverfisráðuneytið.
Hjörleifur var virkjanasinni sem vildi stjóriðju á Austurland þegar hann var iðnaðarráðherra. Þingmenn landsbyggðarinnar vildu skoða stóriðju og með því styrkja stöðu kjördæmanna. Hitt er annað mál að til liðs við Vinstri græna hefur líka komið fólk eins og Kolbrún Halldórsdóttir, sem eru einlægir umhverfisverndarsinnar, og fólk eins og hún hefur hjálpað til við að skapa flokknum sérstöðu sem er þó óðum að hverfa þar sem umhverfismálin skipa æ stærri sess í stefnu annarra flokka, nema e.t.v. Framsóknarflokksins.
Vinstri grænir hafa vissulega styrkt stefnu sína og stöðu frá því að flokkurinn varð til. Ekki hefur þó enn reynt á það hverju sá flokkur er tilbúinn að fórna fyrir ríkisstjórnarsamstarf.
Stelpan frá Stokkseyri, ævisaga Margrétar Frímannsdóttur, er væntanleg í allar betri bókabúðir á næstu dögum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.11.2006 kl. 18:49 | Slóð | Facebook