Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Jónas Hallgrímsson

Í fyrra kom út kennslubókin Sveinn í djúpum dali - um ævi og störf Jónasar Hallgrímssonar, eftir Þórð Helgason og Ingibjörgu Frímannsdóttur.  Þetta er afar gott verk og hentar vel fyrir nemendur í 6.-10. bekk; reynir á býsna marga þætti íslenskunnar, enda var stuðst við Aðalnámskrá grunnskóla við samningu þess, og er um fram allt bráðskemmtilegt.  Þessi kennslubók var gefin út fyrir dag íslenskrar tungu í fyrra og var þá valin til kennslu í fjölmörgum skólum.  Vonandi verður svo áfram, enda þurfum við að halda fast í íslenska tungu og þetta er einn liðurinn í því. 


Ævisaga Margrétar Frímannsdóttir, Stelpan frá Stokkseyri

Stelpan frá Stokkseyri

Um þessar mundir er Bókaútgáfan Hólar að gefa út Stelpuna frá Stokkseyri, ævisögu Margrétar Frímannsdóttur, eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur, bókmenntafræðing. Kennir margra grasa í bókinni, en í henni er m.a. fjallað um æskuárin á Stokkseyri, sviptingar í einkalífi, erfið veikindi, auk hrífandi og ljóslifandi umfjöllunar um starf Margrétar á vettvangi stjórnmálanna. Fjallar hún á eftirminnilegan hátt um baráttuna við erfðaprinsinn Steingrím J. Sigfússon um formannssætið í Alþýðubandalaginu og ekki síður tildrögin að stofnun Samfylkingarinnar, sem hún átti hvað stærstan þáttinn í. Bókin á erindi við alla þá sem láta sig varða stjórnmál og samfélagsmál, enda Margrét einn af mestu stjórnmálaskörungum okkar Íslendinga á síðari árum.

Hver bókaútgáfan af annarri keppist nú við að birta kafla úr þeim bókum sem koma munu út fyrir jólin, til að gefa lesendum nasaþefinn af því sem vænta má, og geta Hólamenn ekki verið neinir eftirbátar hvað það varðar. Að því tilefni má finna stúf úr Stelpunni af Stokkseyri hér að neðan, en hann er tekinn úr kaflanum ,,Fólkið vill samfylkingu", sem fjallar um aðdragandann að stofnun Samfylkingarinnar og þeirra átaka sem urðu innan Alþýðubandalagsins þegar sameiningarferlið fór á fullt.

Ég var sannfærð um að það væri óðs manns æði að ætla sér að reyna að kaupa þessa menn til fylgis við sameiningarhugsjónina. Menn sem alla tíð höfðu verið á móti sameiningu. Menn sem ég hafði árum saman hlustað á halda ræður og koma með heitingar gegn krötunum. Átti ég að fara að versla með stefnuna og gefa eftir hugsjónir um sameinaðan flokk sem hefði möguleika á að breyta þjóðfélaginu og þyrfti ekki að selja sálina úr stefnu sinni í hvert sinn sem farið væri í viðræður um myndun ríkisstjórnar? Nei, mér fannst betra að þessir menn færu annað. Ef byrjað er að kaupa menn til fylgis við stefnumálin þá veit maður aldrei til hvers það leiðir eða hvar á að láta staðar numið.

Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, vildi ekki taka þátt í vinstra samstarfinu vegna þess að hann gat ekki hugsað sér að vinna með krötum. Í raun var hann óháður (þingflokkurinn var þingflokkur Alþýðubandalagsins og óháðra) og því aldrei í liði okkar Alþýðubandalagsmanna heldur. Mér þóttu þessar yfirlýsingar skrítnar vegna þess að í BSRB vann hann með mörgum krötum og það samstarf gekk að mínu viti alveg ágætlega. Ögmundur var þó ekki að biðja um tilslakanir eða sölumennsku,heldur lá afstaða hans fyrir strax í upphafi, skýr og afdráttarlaus eins og hann sjálfur.

[...] 

Margsinnis síðan hef ég heyrt sæmilega greint fólk halda því fram að Vinstri grænir séu slíkur hugsjónaflokkur að þeir hafi ekki getað hugsað sér að gefa tommu eftir í sameiningarviðræðunum. Þeir vilji líka, ef til vill af ásettu ráði, vera litlir og mjög vinstrisinnaðir vegna þess að það þurfi að sýna stjórnvöldum aðhald á hverjum tíma.

Þetta er tómt bull og kjaftæði. Þeir sem stóðu að því að stofna Vinstri græna eru, þvert á móti, stjórnendur í eðli sínu og gerðu það ekki aðeins vegna hugsjóna sinna, heldur einnig vegna þess að þeir vilja vera kóngar í sínum flokki. Steingrímur J. Sigfússon er sterkur stjórnmálamaður, en ekki sá sem best er til þess fallinn að ná fram samstöðu og sætta ólík  sjónarmið. Hann vill stjórna og hann hefði aldrei farið að sameinast öðrum flokkum, vitandi að hann þyrfti að gefa eftir formannstitilinn fljótlega eftir sameiningu.

Það er líka eftirtektarvert hvers vegna aldrei var gert neitt veður út af hersetunni á Keflavíkurflugvelli þegar þeir, sem seinna urðu forystumenn Vinstri grænna, sátu í ríkisstjórn. Hefði það ekki átt að vera forgangsatriði að selja aldrei sannfæringu sína? Við í Alþýðubandalaginu vorum svo sem heldur engir sérstakir talsmenn umhverfismála. Ég man ekki til þess að Alþýðubandalagið í ríkisstjórn legði áherslu á umhverfismál. Umhverfisráðuneytið var fyrst og fremst stofnað til þess að búa til fleiri ráðherrastóla og styrkja ríkisstjórnina með aðild Borgaraflokksins.

Ég man ekki betur en Alþýðubandalagið væri á móti því að styrkja Umhverfisráðuneytið, sem þá var nýstofnað, með því að flytja hluta starfsemi um landgræðslu og skógrækt frá Landbúnaðarráðuneytinu inn í Umhverfisráðuneytið.

Hjörleifur var virkjanasinni sem vildi stjóriðju á Austurland þegar hann var iðnaðarráðherra. Þingmenn landsbyggðarinnar vildu skoða stóriðju og með því styrkja stöðu kjördæmanna. Hitt er annað mál að til liðs við Vinstri græna hefur líka komið fólk eins og Kolbrún Halldórsdóttir, sem eru einlægir umhverfisverndarsinnar, og fólk eins og hún hefur hjálpað til við að skapa flokknum sérstöðu sem er þó óðum að hverfa þar sem umhverfismálin skipa æ stærri sess í stefnu annarra flokka, nema e.t.v. Framsóknarflokksins.

Vinstri grænir hafa vissulega styrkt stefnu sína og stöðu frá því að flokkurinn varð til. Ekki hefur þó enn reynt á það hverju sá flokkur er tilbúinn að fórna fyrir ríkisstjórnarsamstarf.

 

Stelpan frá Stokkseyri, ævisaga Margrétar Frímannsdóttur, er væntanleg í allar betri bókabúðir á næstu dögum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband